Heilun getur bæði verið græðandi og góð forvörn

Ágúst Borgþór Sverrisson (2016, 5. September). Heilun getur bæði verið græðandi og góð forvörn. DV. Sótt 6. maí 2019 af: https://www.dv.is/lifsstill/2016/09/05/heilun-getur-baedi-verid-graedandi-og-god-forvorn/

Það er sérkennileg og góð upplifun að fara í heilun. Blaðamaður DV lagðist á bekk hjá Stefaníu S. Ólafsdóttur, græðara hjá Nýjalandi. Þar lá hann alklæddur undir ábreiðu með mjúka kodda undir höfði og fótum, í um klukkustund. Á meðan ræddu hann og Stefanía saman, hún snerti hann af og til með afar léttum og mildum hreyfingum en var þó meirihluta tímans með hendurnar rétt fyrir ofan líkamann. Auk þess sveiflaði hún pendúl yfir höfði hans.

Sérkennilegur og unaðslegur straumur fór um líkama blaðamanns á meðan tímanum stóð og sterk vellíðunartilfinning fylgdi honum út í daginn eftir meðferðina, hann var afslappaður og úthvíldur. Hvað sem öðru líður má fullyrða að tími í heilun er hin allra besta slökun.

En hvað er heilun? Um hvað snýst hún? Gefum Stefaníu orðið:

„Rætur heilunar liggja í frumtrúarbrögðum, Shamanisma og töfrum. Flest fólk trúir á mátt anda, guða og dýrlinga til áhrif á heilsu. Elsta þekkta tilvitnun í heilandi orku guða í skráðri sögu hins vestræna heims kemur úr forni trú Egypta, þar sem prestar réðu lækningamusterum og notuðu hendur sínar til að veita læknandi orku til hina sjúku. En til er hefð lækninga í ættflokkasamfélögum sem vel getur náð lengra aftur í tímann, s.s. shamana, töfra- eða galdralækningar.“

Hvernig lýsir heilun sér?

„Heilarar lýsa eðli heilunar á ýmsa vegu, getur farið eftir trú þeirra, en hver sem trúin er ber þeim flestum saman um tilvist orkuuppsprettu. Til að skilja til fulls grundvöll heilunar þarf að setja hana saman við náttúrulögmálin. Í alheimi er allt háð lögmáli orsaka og afleiðinga. Sérhver athöfn kallar á andsvar. Á meðan við lifum samkvæmt getu líkamans helst heilsan sjálfkrafa í jafnvægi, það er því mikilvægt að halda streitu í lágmarki, nærast vel, vera í fallegu umhverfi og forðast allar tilfinningatruflanir. Læra að fyrirgefa og vera sáttur við Guð og menn.

Heilarinn einbeitir sér að því að finna sjálfheilunarkerfi skjólstæðingsins, að hjálpa honum að finna undirrótina. Hippókrates og Dr. Edward Bach eru menn sem ég lít mjög upp til en þeir voru sammála um að ekki yrði nein sönn lækning án viðhorfsbreytinga, andlegs friðar og innri hamingju.

Í heilun er verið að vinna með orkukerfið og líkamann. Það er ekki hægt að aðskilja líkama og sál en orkukerfið, orkustöðvar og orkublikið næra líkamann. Að fara í heilun getur verið forvörn því eitthvað kann að hafa farið úrskeiðis hjá manneskjunni í orkukerfinu og ef það fær að vera óáreitt í langan tíma án þess að nokkuð sé gert þá fer líkaminn smám saman að veikjast.“

Eiga þá allir erindi í heilun? Líka þeir sem eru hraustir, rétt eins og blaðamaðurinn sem lagðist á bekkinn hjá Stefaníu?

Að fara í heilun getur verið forvörn því eitthvað kann að hafa farið úrskeiðis hjá manneskjunni í orkukerfinu og ef það fær að vera óáreitt í langan tíma án þess að nokkuð sé gert þá fer líkaminn smám saman að veikjast.

„Já, allir eiga erindi í heilun, ungir sem aldnir, mínir skjólstæðingar eru ekki síður börn en fullorðnir. Við erum að vinna með ákveðnar orkustöðvar og orkublik sem umlykja líkamann og eru ósýnileg fyrir flestum en við getum mjög auðveldlega fundið fyrir þeim og ástandi þeirra með höndunum. Stóru orkustöðvarnar eru sjö. Ein er staðsett fyrir ofan hvirfilinn. Hún inniheldur alla liti sem til eru. Þessi orkustöð tengir okkur við alheimsorkuna. Næsta orkustöð er við ennið og er mest fjólublá. Hálsstöðin er næst og hún er mest blá, í alls konar bláum tónum. Litirnir fara eftir því hvernig okkur líður og hvað orkustöðvarnar eru heilbrigðar. Því heilbrigðari sem orkustöðvarnar eru því skærari, bjartari og fallegri eru litirnir.“

Á meðan Stefanía útskýrir þetta fyrir blaðamanni, sitjum við inn á lítilli en hlýlegri og vistlegri vinnustofu hennar. Andrúmsloftið er afar notalegt, lágvær og afslappandi tónlist hljómar, umhverfið er í senn smekklegt og látlaust og nokkrir fallegir munir prýða stofuna. Sjálf hefur Stefanía afskaplega þægilega nærveru og viðmót hennar ber vitni um æðruleysi, íhygli og fordómaleysi. Hún er blátt áfram, vingjarnleg, hreinskilin og hæversk.

Stefanía bendir á fallega skýringarmynd á veggnum sem sýnir orkustöðvarnar og staðsetningu þeirra með tilliti til mannlíkamans.

„Síðan er það hjartastöðin sem er græn. Hún tengist þeim líffærum sem eru á þessu svæði, þar með hjartanu og blóðrásinni. Manneskja með veikt hjarta er með veika hjartastöð. Síðan er það þindarstöðin eða sólarplexus. Hún er gul. Magastöðin er appelsíngul og loks er það rótarstöðin sem er rauð. Þessar sjö stóru orkustöðvar vinnum við mest með en síðan erum við með margar litlar orkustöðvar. Orkustöðvarnar tengjast orkublikum sem umlykja líkamann; innsta blikið sem er næst líkamanum er svokallaður eter-líkami sem liggur um 7 cm frá líkamanum. Tilfinningablikið er um 15 cm frá líkamanum. Þessi blik eru eins og harði diskurinn í tölvunni, þarna geymum við allt sem við upplifum í lífinu. Allar minningar úr þessu lífi eru til dæmis í tilfinningablikinu og í heilun er fólki hjálpað til að losa sig við áföll og erfiðleika sem sest hafa í orkukerfi okkar og geta t.d. tengst slæmum minningum. Orkublikið getur náð meira en metra út frá líkamanum.

Áhrifamáttur litanna

Stefanía segir að litir séu mjög mikilvægir í heilun og þeir hafi mikil áhrif á okkur:

„Hver orkustöð er með sinn lit og því getum við notað litina til að heila þessi svæði. Ef manneskja er til dæmis illa haldin af hálsbólgu tengjast erfiðleikarnir hálsstöðinni. Skjaldkirtillinn, raddböndin og öll líffæri sem eru á þessu svæði tengjast hálstöðinni bæði líkamlega og andlega. Manneskja sem á erfitt með að tjá sig er með veika hálsstöð.Ef eitthvað hefur farið úrskeiðis gæti verið gott að klæðast fallega bláum lit eða fá sér bláan trefil um hálsinn.

Litir hafa einstaklega mikinn áhrifamátt. Fjólublár litur róar til dæmis og kyrrir og þess vegna er gott að hafa fjólublátt í kringum sig í svefnherberginu, hvort sem það eru t.d. fjólublá náttföt eða fjólublár litur á svefnherbergisveggnum.

Svo má nefna að appelsínugulur litur, sem er litur magastöðvarinnar, er gleðilitur. Þannig að þegar maður er dapur eða manni líður illa getur kannski verið gott að t.d. kaupa sér appelsínugulan rósavönd.“

Stefanía víkur því næst að orkuuppsprettunum þremur sem hún segir næra orkukerfið okkar:

„Jarðarorkan – jörðin – nærir okkur eins og umhyggjusöm móðir, hún tengist beint neðstu orkustöðinni og fer síðan þaðan upp. Alheimsorkan endurnýjar lífsorkuna, hún kemur að ofan og tengist hvirfilstöðinni; þaðan fer hún um allt orkukerfið okkar. Þriðja uppsprettan er síðan kærleiksorkan, hún er það að vera manneskja og þykja vænt um aðra. Eftir því sem við verðum kærleiksríkari og látum okkur þykja vænna um aðra og umhverfið – án skilyrða – það að getað elskað hvern sem er án skilyrða, að einfaldlega sjá fegurðina í hverri manneskju – það er kærleiksorkan. Ég legg mikla áherslu við mína nemendur í Heilunarskólanum að losa sig við fordóma og ná í kærleikann, t.d með fyrirgefningu.“

Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun

Einn þáttur heilunar sækir þekkingu til hinna hefðbundnu læknavísinda, en það er höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun:

„Upp úr aldamótum 1900 uppgvötaði Dr. William G. Suterland osteopath (beina- og liðfræðingur) að höfuðkúpubein mannsins voru hreyfanleg um saumana sem var andstætt því sem áður var talið. Hann gerði ýmsar tilraunir og rannsóknir í framhaldi af þessari uppgvötun. Síðar kom í ljós taktbundinn sláttur og vökvaþrýstikerfi innan hryggsúlu og höfuðkúpu sem hefur áhrif á alla starfsemi líkamans.

Höfuðbeina- og spjaldhryggjakerfið er myndað af himnum sem umlykja heila og mænu, höfuðbeinum og spjaldhrygg ásamt mænuvökva og bandvef sem myndar þéttriðið net um allan líkamann. Allt sem kemur fyrir okkur hefur fyrr eða síðar áhrif á hreyfingar kerfisins og getur truflað hana beint eða óbeint.

Þetta tengist forvarnargildi heilunar: Við geymum áföllin sem við verðum fyrir á ákveðnum svæðum líkamans og þau geta orðið að meini ef ekki er losað um.Aðalmarkmið með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð er að koma á og viðhalda heilbrigði og jafnvægi á öllum sviðum.

Höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun er í senn mild og öflug meðferð sem getur hjálpað flestum, hvort sem um er að ræða minniháttar óþægindi eða alvarlega kvilla. Meðferðin felst í mjög mildri snertingu þess sem meðhöndlar, við höfuð, spjaldhrygg og aðra líkamshluta þess sem þiggur. Hendurnar eru notaðar til að nema hreyfispennumynstur sem eiga sér djúpar rætur í kjarna líkamans. Þessi mynstur eru endurspeglun hreyfingar í höfuðbeina- og spjaldhryggskerfinu. Þiggjandi meðferðarinnar liggur fullklæddur á bekk í friðsælu umhverfi. Hann nær þar djúpri slökun og upplifir létti og vellíðan.

Var sjúkraliði og ætlaði aldrei að starfa við heilun

Stefanía segist bera mikla virðingu fyrir þeirri þekkingu sem læknavísindin og heilbrigðiskerfið hafa aflað og oft sér hún tilefni til að ráðleggja sínum skjólstæðingum að leita til læknis. En stundum dugi hin hefðbundnu læknavísindi ekki til:

„Líkami og sál eru ein heild, það er ekki hægt að aðskilja þetta. Stundum ná læknavísindin ekki nægilegum árangri og þá getur skýringin verið sú að orkukerfið er ekki heilbrigt. Það er hægt að fá einhverja bót með lyfjum eða uppskurði en ef orkukerfið er ekki meðhöndlað þá hættir okkur til að fara í sama farið aftur eftir einhvern tíma,“ segir Stefanía.

Árum saman starfaði hún sem sjúkraliði á Landakotsspítala en heilun kynntist hún vegna sinna eigin veikinda:

„Ég hafði unnið með þessu framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki, færustu skurðlæknum og lyflæknum sem hugsast getur, framúrskarandi hjúkrunarfræðingum – og svo veikist ég sjálf. Ég fékk fæðingarþunglyndi. Ég talaði við minn heimilislækni, sem er frábær og ég treysti honum mjög vel. En hann sagði: „Það eina sem ég get gert fyrir þig, Stefanía, er að gefa þér lyf. En ég veit að þú ert ekki á þeirri línu.“ Ég hef alla tíð verið á móti mikilli lyfjanotkun og mér hefur til dæmis blöskrað ofnotkun á svefnlyfjum og sýklalyfjum. Ég fór að velta fyrir mér hvað annað ég gæti gert. Sjúkdómurinn var ekki á mjög háu stigi, ég komst í gegnum daginn en mér leið ekki vel. Mér var sagt að þetta gæti varað í um tvö ár og ég gat ekki sætt mig við að mér liði svona í tvö ár.“

Stefanía komst í kynni við konu sem stundaði reikiheilun. Hún var hissa á því hvað meðferðin virkaði vel en henni leið strax mun betur eftir fyrsta tímann. Í kjölfar þess að hún fékk bót meina sinna með heilun fór hún síðan að kynna sér þessi fræði betur og sækja námskeið í heilun:

„Ég hugsaði með mér að það væri frábært að hafa þessa þekkingu fyrir mig og mína fjölskyldu en mig grunaði aldrei að ég ætti eftir að leggja þetta fyrir mig. Forvitnin rak mig áfram og síðar kynntist ég þeirri heilun sem ég vinn með og kenni í dag. Sú þekking kemur frá alþjóðasamtökum heilara sem hafa aðsetur í Bretlandi. Þegar ég síðan opnaði stofuna mína fyrst þá ákvað ég að fá kennsluréttindi sem heilari og sótti það leyfi til þessara samtaka.“

Andinn ofar efninu

Stefanía bendir á að þekking á áhrifum hugarástands og tilfinninga á líkamlega heilsu hafi aukist:

„Nú er almennt vitað að hugarástand og tilfinningar hafa miklu meiri áhrif en áður var talið og kennt hefur verið í viðurkenndri læknisfræði. Flestum er þannig farið að ef þeim líður illa, eru áhyggjufullir eða óhamingjusamir þá verða þeir t.d. næmari fyrir sýkingum og finna frekar til verkja, þreytu o.s.frv. Sambandi líkama, hugar og sálar er þannig farið að afstaða eins hefur áhrif á annað. Eða eins og Plato sagði: „Ekki skyldi reyna að lækna líkamshlutann án þess að taka heildina til meðferðar. Enga tilraun skyldi gera til að lækna líkamann án sálarinnar og ef við að höfuð og líkami eiga að vera heilbrigð verður að byrja á að lækna hugann.“

Aukinn skilningur á heilun

„Það eru liðin rúm 20 ár síðan ég lærði heilun og þá var maður með storminn í fangið. Fordómarnir voru gífurlegir en vanþekkingin er uppspretta fordómanna. Ég lagði ekki í að segja nema örfáum frá því að ég væri að tileinka mér þessi fræði. Ég lá stundum andvaka á næturnar og spurði sjálfa mig hvers vegna í ósköpunum ég hefði svona mikinn áhuga á þessu, á fræðum sem svo margir töluðu illa um og fordæmdu sem fáránleg og jafnvel stórhættuleg. En það var eitthvað sem rak mig áfram, ég las allar bækur um þetta sem ég komst yfir og fannst þetta sífellt áhugaverðara.“

Stefanía minnist eins af sínum fyrstu skjólstæðingum en það var kona sem hafði þjáðst af áralöngu svefnleysi en ástæðan var sú að hún burðaðist með vondar minningar. Þegar konan steig upp af bekknum hjá Stefaníu sagði hún:

„Það er svo undarlegt að þú snertir mig eiginlega ekki neitt.“ En konan sofnaði á heimleiðinni í strætisvagninum og hélt áfram að sofa vært og lengi eftir þetta.

Stefanía segist upplifa sífellt aukinn skilning á heilun enda eru raunvísindin farin að viðurkenna hana meira og þekking á því að andleg mein valdi líkamlegum kvillum hefur aukist. Sem dæmi um áhuga raunvísindanna á andlegum lækningum nefnir Stefanía hugleiðslu til sögunnar:

„Núna hafa læknavísindin sýnt fram á heilsufarslegan ávinning af hugleiðslu. Ég þekki hugleiðslu vel og beiti henni mikið í mínum störfum. Þarna treysti ég hins vegar meira á reynsluna og söguna en endilega niðurstöðum vísindalegra rannsókna, ég bendi á að það er komin meira en þúsund ára reynsla af gagnsemi hugleiðslu.“

Sem fyrr segir ber Stefanía mikla virðingu fyrir vísindalegri þekkingu og hún hefur hvað eftir annað vísað sínum skjólstæðingum til læknis þegar ástæða hefur verið til. Hún segir að nokkur skemmd epli geti komið illu orði á andlegar lækningar, dæmi séu um andlega fárveikt fólk sem hafi gefið sig út fyrir að vera heilarar. Hins vegar sé til óvandað fólk í öllum stéttum samfélagsins en af einhverjum ástæðum sé meira fjallað um „svikara“ í þessari stétt en öðrum.

Sjálf hefur hún safnað upp gífurlegri reynslu og þekkingu sem græðari í yfir 20 ár. Starfsemi hennar hefur farið hljótt þrátt fyrir mikinn árangur. Núna segir Stefanía þann tíma runninn upp að hún vilji láta meira að sér kveða, tjá sig óhikað um gagnsemi heilunar og auka við starfsemi sína, sem nú stendur á afar traustum grunni langrar reynslu og mikillar þekkingar á þessum fræðum.

Áhugavert

Nýjaland var að gefa út geisladisk; Óskastund, með hugleiðslum og vellíðunartónlist.

Hugleiðslurnar eru talaðar og eru eftir Stefaníu Ólafsdóttir,
tónlistin eftir Friðrik Karlsson.

Óskastund er fallegur diskur sem ætlaður er til að hjálpa okkur að láta óskir okkar og drauma rætast.

Sölustaðir: 

Nýjaland ehf,. Kambahrauni 53 Hveragerði

Þrjár leiðir til að panta;

Hringja í síma 5174290 eða 8682880

Senda email á nyjaland@gmail.com
Eða hafðu samband í gegnum heimasíðuna okkar nyjaland.is.

Heilunarskólinn nýtt á döfinni

Sendið okkur póst á nyjaland@gmail.com

eða hringið í síma  8682880 til að fá ítarlegri upplýsingar um heilunarskólann.

ATH!!! Það er hægt að taka hluta af náminu í fjarnámi og einnig að koma með óskir um tímasetningar.

Það er allt hægt, hjá okkur í Nýjalandi.

Óskastund

Heilunarskóli Nýjalands býður upp á hugleiðslu sem við köllum Óskastund.

Það er öllum frjálst að mæta. Við förum í hugleiðslu til að ná árangri í að láta óskir okkar og drauma rætast.

Við hittumst annan hvern laugadag kl 10-12

Vertu með og hafðu samband !!

Vefhönnun © Vefsala.com fyrir Nýjaland